Humar

Við fengum góða gesti í mat, þeir komu með humar með sér
{hornfirðingar á ferðinni}

20130720-193802.jpg
Sem ég fékk að elda… það var svo gaman að ég gleymdi næstum alveg að taka myndir. Svo var þetta svo gott að ég gleymdi aftur að taka myndir

Ég byrjaði á að kljúfa humarskottinn, það er best að gera það á meðan þau eru hálf frosin

20130720-194210.jpg

Svo er mjög gott að setja aðstoðarmanninn í að hreinsa görnina úr

20130720-194328.jpg

Það var ákveðið að gera tvenns konar uppskriftir, eina klassíska hvítlauks útgáfu til að vera alveg seif og aðra ekki svo klassíska sæta tamari útgáfu til að prufa eitthvað nýtt

Báðar útgáfur voru algjör dásemd

20130720-195121.jpg

Fyrir 4 má reikna með 10-12 stórum hölum á mann, við vorum með talsvert meira og kláruðum allt

Klassískur hvítlauks humar

200 gr smjör
1 hvítlaukur
Steinselja (ég notaði kóríander)
Salt
Pipar

Bræðið smjörið í potti, raspið hvítlauksrifin út í og kryddið með salti og pipar

Leggið humarinn á fat með kjöthliðina niður og hellið hvítlaukssmjörinu yfir, látið marinerast í 20-30 mínútur

Steikið humarinn á pönnu á háum hita í 2 mínútur á kjöthliðinni, snúið og steikið í 30 sekúndur á skelinni

Saxið steinselju (kóríander) og dreifið yfir humarinn þegar hann er tilbúinn

Skiljið 2-3 skott eftir á pönnunni og hellið rjóma út á til að gera sósu, smakkið til með salti og pipar og ef til vill smá dropa af humarkrafti

Ekki svo klassískur sætur tamari humar

1 dl tamarisósa
4 msk púðursykur
4 msk sesamolía
4 hvítlauksrif
2 stk rauður chili
2 cm engiferrót
Svartur Pipar

Setjið tamarisósuna og púðursykurinn í pott og hitið þar til sykurinn bráðnar

Takið af hitanum og bætið sesamolíu út í ásamt fínt söxuðum hvítlauk, chili og engiferrót, kryddið með nýmöluðum svörtum pipar

Hellið mareneringunni yfir humarinn og látið bíða í 20-30 mínútur

Grillið á vel heitu grilli á kjöthliðinni í ca 3 mínútur

Með þessum lúxus höfðum við bagettubrauð, ferskt salat og afganginn af tamari leginum
{ískalt hvítvín toppar þessa máltíð}

20130720-201346.jpg

4th of juli burger {with Reykt Chili Bérnaise}

þegar ég áttaði mig á því að það var 4. júlí var ekki erfitt að ákveða hvað ætti að vera í matinn því hvað er Amerískara en hamborgari? Jú, kannski Grillaður Hamborgari? Með amerískri bbq sósu!

BBQ

BBQ

Þetta var tekið til fyrir herlegheitin:

500 gr. Ungnautahakk
200 gr. Rifinn ostur (ég notað poka af pizzaosti)
Maldon Salt
Svartur Pipar, nýmalaður
Olía til að pensla borgarana með

Hamborgarabrauð
Rauðlaukur
Tómatar
Iceberg salat
Amerísk Barbequ sósa {Santa Maria}

OG

Reykt Chili Bérnaise sósa frá Hrefnu Sætran -ef þið hafið ekki prufað nýju Ora sósurnar frá Hrefnu Sætran þá endilega drífið í því. Þær eru hver annari betri-

Svo var skundað á Fjólugötuna til tengdó {enda mikið betra og skemmtilegra að grilla þar heldur en heima}

Blandið saman hakkinu og ostinum, best er að gera þetta með hönudnum í stórri skál, og mótið svo 4 borgara úr blöndunni
Kryddið með salti og pipar og penslið með olíu
Grillið í ca 6 mínútur á hvorri hlið
Hitið brauðin líka í pínu stund  á grillinu ef þið viljið, passið að brenna ekki

IMG_0784

Sneiðið rauðlauk og tómata, rífið icebergið í passleg blöð

IMG_0785

Setjið saman; brauðbotn, Reykt Chili Bérnaise, rauðlaukur, buff, bbq sósa, tómatar, kál, Reykt Chili Bérnaise, brauðlok.

IMG_0788

Skolið niður með ískaldri kók, einum héluðum -eða eins og dekurskjóðan ég, með rauðvínsglasi og njótið

Kókosmarineraðar kjúklingabringur með hnetusósu og grilluðum kúrbít

20130707-221647.jpg

Þessi uppskrift hefur fylgt mér í mörg ár en hefur ekki oft ratað á matseðilinn. Meðlætið er ekki heilagt og grjónin voru bara til að það væri auðveldara að borða mikið af sósunni.

Saga bjó til salat úr spínati og ferskum jarðaberjum sem er mjög gott saman (bætið við mozzarella osti og balsamikediki og þið eruð komin með nammi)

Ottó Marvin frændi kom í mat, hann kláraði matinn sinn annað hvort af því að þetta var í lagi eða af því að hann er vel upp alinn 🙂

Kókosmarineraðar kjúklingabringur með hnetusósu

4 kjúklingabringur (eða 1 á mann)

Marinering

1 dós kókosmjólk
1 rauður chillipipar, saxaður
1 msk tamari sósa eða soya sósa
3 msk söxuð kóríander lauf
Safi úr 1/2 lime
1 tsk sítrónupipar

Blandið öllu saman í skál og leggið bringurnar ofan í, látið marinerast í 1-2 klst.
Takið bringurnar svo upp úr kryddleginum og strjúkið löginn af (geymið kryddlöginn)
Grillið í nokkrar mínútur á hvorri hlið (tekur 10 mín. á hvora á okkar grilli)

20130707-221817.jpg

Hnetusósa

Krydddlögurinn af bringunum
4 msk hnetusmjör
1 msk tamari eða soya sósa
2 dl rjómi

Setjið allt saman í pott og sjóðið saman

Grillaður kúrbítur

2 kúrbítar
2 hvítlauksgeirar, skornir í flísar
2 msk ólífuolía
1/2 stk rauðlaukur, saxaður
Salt og pipar

Kúrbíturinn er skorinn eftir endilöngu og skornir krossar ofan í kjötið, ekki í gegn
Hvítlauksflísunum troðið í krossana og allt penslað með olíu (ég hellti nú bara), lauknum stráð yfir, saltað og piprað
Grillað á grænu hliðinni þar til krossarnir opna sig og allt er orðið djúsí, þeir taka svipaðan tíma og bringurnar – virkar með öllum mat

20130707-222029.jpg

Hrísgrjón

1 bolli grjón
2 bollar vatn
Smá salt
Sejið allt saman í pott, lokið á kveikið undir á hæsta hita, fáið upp kröftuga suðu, slökkvið undir og græið kvöldmatinn á meðan grjónin bíða

20130707-222208.jpg
Þetta er diskurinn minn, það er kjúklingur þarna undir sósunni.

Þetta kemst á grillseðil sumarsins, það gerir líka 4. júlí hamborgarinn sem hefur ekki enn komist hingað á bloggið. Skelli honum inn á morgun {betra seint en aldrei}