Að vakna á undan deginum…

Að vakna á undan deginum á meðan allir sofa
Að njóta kyrrðarinnar og fyrstu sólargeislanna. Hella upp á sterkt kaffi, smyrja brauð, lesa, skrifa, njóta.
Í gærkvöldi bakaði ég brauð sem ég hef ekki bakað í langan tíma, það var dásamlegt. Brauðið var borðað í kvöldmat með stóru salati.
  

Það er engin uppskrift af salatinu en í stórt fat fór:
Salat blanda 1/2 box

1 stór vorlaukur, sneiddur

kirsjuberja tómatar 1/2 box, skornir í tvennt

3 msk kjúklingbaunir, soðnar (t.d. úr krukku)

1/4 vatnsmelóna, skorin í bita

1/3 rautt chilli, skorið í sneiðar

3 lúkur bláber

3 msk feta ostur í kryddlegi, gott að hafa smá af olíunni með

1 lúka blandaðar hnetur og möndlur, ég set alla afganga af slíku í krukku og nota svo út á salöt, í bakstur, út í þeytinga

Að lokum dreypti ég dálitlu af ólívuolíu og smá balsamik yfir salatið og kryddaði með nýmöluðum svörtum pipar og sjávarsalti.
Ferskar kryddjurtir, kóríander og basilika, saxaðar og dreift yrif í lokin.

Við höfðum skál af bbq kartöfluflögum á borðinu og muldum þær yfir salatið þegar það var komið á diskana.
Uppskriftin af brauðinu er einfaldlega aftan á speltpokunum frá Sollu sem fást í Bónus. Ég geri tvöfalda uppskrift og aldrei nákvæmlega eins. Það má nota hvaða mjólk sem er, bara það sem þið eruð vön að nota og eigið í ísskápnum (léttmjólk, ab-mjólk, soyamjólk o.s.frv.) En þetta gerði ég núna:

Speltbrauð
10 dl spelt, fínt og gróft blandað saman

1 dl sesamfræ

1 dl kókosmjöl

6 tsk lyftiduft

1 tsk sjávarsalt

4 dl léttmjólk

4 dl sjóðandi vatn
Blandið þurrefnunum saman í stórri skál. 

Bætið mjólk og sjóðandi vatni saman við með sleif.

Hrærið eins lítið og þið getið. Rétt blandið deiginu saman. Þannig verður brauðið léttara.

Smyrjið eitt stórt brauðform (eða tvö lítil).

Hellið deiginu í formið og bakið við 200°c í 30-35 mín (25-30 mín ef tvö lítil form).