Fiski tacos

Mig langaði í fiski tacos og fann fullt af uppskriftum á netinu. En ég nennti ekki neinu veseni og skar fiskinn í strimla, velti upp úr taco kryddi og steikti í kókos olíu á pönnu. Hitaði pönnsurnar beint á keramik hellu {af því að það er hægt og reyndar mikið fljótlegra en að vesenast með pönnu}, skar niður kál og bjó til mangó salsa {mangó, tómatar, rauðlaukur ~ saxað smátt og blandað saman í skál}. Týndi framm nokkrar sósur og  Doritos og þetta var klárt. 

Smakkaðist súper vel! 


Spesíur

Mér finnst spesíur mjög góðar og af hverju ekki að eiga þær með kaffinu?

Ég skellti í eina uppskrift, notaði gróft spelt í staðinn fyrir venjulegt hveiti og það var sjúklega gott!

400 g smjör

500 g gróft spelt

150 g flórsykur

Súkkulaði dropar

  

Allt hnoðað saman, rúllað í lengjur og kælt. Það er alveg nóg að kæla í 30 mínútur en deigið geymist í plasti í ísskápnum í nokkra daga. Það er mjög þægilegt að græja deigið amk daginn áður en þú ætlar að baka. Þá er það svo fljótlegt. 
  
Svo þegar þú nennir að baka eru lengjurnar skornar í sneiðar, raðað á smurða plötu bakað við 200 gráður þar til kökurnar verða ljósbrúnar á jörðunum, tekur ca 5-7 mínútur. 

  
Kökurnar teknar af plötunni og fljótt settur súkkulaði dropi á miðju hverrar köku. 

Linsubauna bolognese 

Það var mjög gott pasta í kvöldmatinn í gær, þetta fór í það:

1 tsk oregano, smá timían, 1 tsk pizzakrydd, chilly explosion, 1 tsk sjávarsalt og 1/4 tsk hvítur pipar. 

  
2-3 hvítlauksrif og 1 laukur, saxaðir og steiktir í ólífuolíu eða smjöri (eða bæði) við vægan hita í 5-10 mínútur. 

  
1 sæt kartafla afhýdd, skorin í frekar smá bita og bætt út á pönnuna. 

100 gr rauðar linsur, skolaðar og bætt á pönnuna ásamt 1 krukku af maukuðum tómötum, 1 krukku af tómatpúrru, 4 dl af kókosmjólk og einum grænmetisteningi. 

  
Látið malla í amk 30 mínútur en gjarnan lengur. Sjóðið pasta samkvæmt leiðbeiningum á pakka, ekki verra að það sé heilhveiti. Skellið salati í skál, hitið hvítlauksbrauð eða annað gott brauð, borðið og njótið. 

(Ekki hægeldað) Lambalæri

Eru allir hættir að henda lærinu í ofninn, steikja það á góðum hita og éta það ca tveimur tímum seinna?

Ekki ég. Mér finnst vel steikt lambalæri, eins og amma og mamma gerðu það, lang best. Ekkert vesen, bara krydda með salti og pipar, season all eða einhverju öðru grill kryddi, setja lærið í ofnpott með smá smjörklípu eða olíuslettu og inn í ofn. Á háan hita þangað til þú finnur góða steikingar lykt og lækka þá í 180 og láta lærið eiga sig þar í  einn og hálfan til tvo tíma. 

Ég nota gjarnan lamba krydd frá Pottagöldrum. Eða bæti smá rósmaríni á lærið. Hendi stundum lauk og gulrótum með smá vatni í pottinn og bý til sósu úr soðinu. 

En núna gerði ég pipar ostasósu. Hellti 1/2 ltr af rjóma í pott, skar rúmlega hálfan pipar ost út í, henti einum lamba teningi út í. Hitaði þetta saman, hrærði þar til osturinn var bráðnaður og lét sósuna svo malla á lægsta hita í nokkrar mínútur. 

Kartöflurnar sauð ég þar til mjúkar, penslaði svo ofnplötu með ólívuolíu, raðaði kartöflunum á plötuna, kramdi þær með glasi {þannig að þær litu út eins og þykkar smákökur} penslaði þær með olíu og kryddaði með sjávarsalti, svörtum pipar og rósmaríni. Bakaði þær svo í ofninum í 15-20 mínútur á 220. 

Með þessum herlegheitum var soðið grænmeti {brokkolí og maís} og rifsberjahlaup. 

Einfalt. Fljótlegt. Rosa gott! 

  

Amma mín

Amma mín á afmæli í dag, 93 ára. Ég settist niður við gamla borðstofuborðið hennar sem ég er svo heppin að hafa hjá mér, drakk kaffi úr gömlum sparibolla og skrifaði henni bréf. Hver elskar ekki að fá bréf? 

  

Dásamlega pirrað fólk

Fyrir nokkrum vikum fengum við Husky hvolp. Hann er að venjast búrinu sínu, hefur alltaf verið sáttur við búrið ef það er opið,  er farin að sofa þar og sættir sig við að vera lokaður í búrinu þegar við erum heima. Hann er mjög ósáttur við að vera skilinn eftir einn heima í búrinu en þarf að venjast því. 

Tvisvar hefur hann verið skilinn eftir einn heima í búrinu í smá tíma. Í fyrra skiptið fór ég í klippingu og í seinna skiptið (5 dögum seinna) fór ég í Krónuna. 

Þegar ég kom heim úr búðinni beið mín bréf á útihurðinni minni. 

  Þá vitum við að hundurinn minn spangólar og vælir ALLAN DAGINN þegar ég er ekki heima. 

Nema ég er búin að vera heima allan daginn síðan hundurinn kom. Fyrir utan einu sinni í ca 2 tíma og í morgun í ca 1 tíma. 

Og ég held að við meigum bara hafa eins hátt og við viljum heima hjá okkur á daginn. 

Við voffi fórum samt beint í heimsókn til pirraða starfsfólksins niðri og báðumst afsökunar, útskýrðum stöðuna og bentum á staðreyndir. Þá varð pirraða fólkið dáldið kjánalegt. 

Grænmetis vika

Ég geri yfirleytt viku matseðil fyrir heimilið og versla inn einusinni eða tvisvar í viku. Með því að skipuleggja matseðilinn og innkaupin má spara nokkrar krónur og snúninga. Svo er gott að þurfa ekki alltaf að vera að hugsa um hvað á að vera í matinn í kvöld.

Frystikistan var tóm, ekkert kjöt frá pabba til lengur og enginn fiskur. Þá ákvað ég að nota tækifærið og elda grænmetisrétti í viku. Ég fór inn á eina af mínum uppáhalds bloggsíðum, oh my veggies, og náði mér í viku plan hér en þau setja inn nýtt plan fyrir hverja viku. Svo prentaði ég út innkaupalistann fyrir herlegheitin, hann er líka tibúinn hjá þeim. Athugaði hvað væri til í skápunum og bætti svo við því sem vantaði í nesti fyrir stelpurnar. þægilegra getur það ekki verið.

Með því að elda grænmetisrétti í heila viku lærir maður margt nýtt, þetta er ekkert flókið. Sumt af því sem var á vikulistanum fannst mér hreinleg of einfalt. {Er þetta uppskrift? Er þetta kvöldmatur? Hljómaði í hausnum á mér} En já, þetta var uppskriftin og þetta var í matinn. Ég bjóst við að það yrði erfitt að fá barnið á heimilinu til að smakka en það var ekkert mál. Þurfti ekki að ræða það. En þegar vikan var liðin var hún {og öll hin reyndar líka} ósköp ánægð með að fá kjúkkling… borinn framm með fullt af grænmeti.

Ég gleymdi alveg að taka myndir af þessu grænmetisævintýri.

Heimilislegir sunnudagar

Í gær fórum við á Kex og gerðum krakkajóga með Álfrúnu, en viðburðurinn er hluti af Heimilislegum sunnudögum á Kex. Það verður eitthvað í boði fyrir fjölskyldurnar að gera saman alla sunnudaga í vetur. Ég var að leita að upplýsingum um þetta á heimasíðu og facebook síðu Kex, en fann því miður ekkert. Vonandi verður bætt úr því.

Á meðan ég og Saga gerðum jóga, fengu Hóffý og Siggi sér kaffi á barnum. Þessi 17 ára vildi nefnilega koma með. Sem gerist ekki oft. En það er ekki sama hvert er verið að fara. Eftir jógatímann nutum við þess að slappa af með smá snarl í skemmtilegu og mjög barnvænu umhverfi á Kex {sem höfðar bæði til 17 ára og 9 ára}