Það er alveg nauðsynlegt að fá soðna ýsu annað slagið og um að gera að nostra við soðninginn.
Ég sýð ýsuna í pönnu, set smá smjörklípu hér og þar, lokið á og stilli helluna á meðal hita. Slekk svo undir þegar síður. Það er algjör óþarfi að setja vatn í pönnuna því það er svo mikið vatn í fiskinum.
Salta svo með góðu salti, t.d. Maldon þegar fiskurinn er borinn fram.
Við vorum með nýar kartöflur frá Seljavöllum, gott rúgbrauð og smjör og grænmetið var íslenskir Piccolotómatar frá Friðheimum. Þeir eru sætir og bragðmiklir, algjört nammi.
Eftir matinn gerðum við Saga hugmyndalista yfir skemmtilega hluti sem við getum gert í sumarfríinu, sumt er búið að gera, sumt er gert aftur og aftur og aftur…