Steiktur fiskur

Ég ætlaði að hafa steiktan fisk í raspi í kvöldmatinn og var búin að taka 2 ýsuflök úr frystinum. Þegar ég ætlaði að byrja að elda átti ég ekki hvorki egg né rasp. Þannig að klassískur fiskur í raspi var út úr myndinni en þetta gerði ég í staðinn:

20130701-211002.jpg

Steiktur fiskur {í kókos-karrýi}

600-800gr. ýsa eða þorskur, roðlaus og beinlaus
2 dl ólífuolía + 2 msk til steikingar
2 hvítlauksrif
1 msk karrý
1 tsk cumin
1 tsk Maldon Salt
Nýmalaður Svartur pipar
6 msk kókosmjöl
3 msk sesamfræ
1/2 sítróna, börkur og safi

1. Kremjið hvítlauksrifin út í ólífuolíuna og blandið cumin, karrý, salti og pipar saman við
2. Blandið saman sesamfræum og kókosmjöli á disk
3. Skerið fiskinn í hæfilega bita og veltið upp úr olíunni
4. Sláið fiskbitunum því næst í raspið
5. Steikið í 2 msk af ólífuolíu í 2 mín. á annari hlið við góðan hita, snúið við og steikið áfram í 5 mín. við meðal hita
6. Rífið börkinn af sítrónunni fínt yfir fiskinn og kreistið safann yfir

20130701-211025.jpg

Við borðuðum þetta með frönskum, kokteilsósu og einföldu fersku salati sem samanstóð af salatblöðum, gúrku og papriku

20130701-211038.jpg

20130701-211048.jpg

Þetta var mjög gott, meira að segja Saga var sátt 🙂

Ravioli með sætri kartöflu

Upprunalega hugmyndin að þessu bloggi var sú að setja inn uppskrift og myndir af kvöldmatnum, alla daga.

Það er aldrei að vita nema það takist með tíð og tíma en fyrst er markið sett á 3 daga í viku.

Ég bý sjaldnast til eigin uppskriftir, notast oftast við hugmyndir frá öðrum en á erfitt með að fylgja uppskriftum bókstaflega eftir. Þetta endar oftast á því að vera einhverskonar stæling, framkölluð úr því sem er til í skápunum, jafnvel þó ég fari út í búð með innkaupalista þá gleymi ég annað hvort að skrifa eitthvað á hann eða bara les hann ekki nógu vel.

Ég vil helst fá að vera í friði í eldhúsinu á meðan ég elda, það er minn tími til að slaka á. En þegar við gerum pasta er líf og fjör! Þá hjálpast helst allir að enda heilmikið vesen. Ég útbý deigið með góðum fyrirvara, stundum kvöldið áður.

Svo þarf tvo til þrjá fjölskyldumeðlimi á pastavélina, hinir fara í að gera sósu eða fyllingu, eftir því hvað á að verða úr pastanu.

Hér kemur uppskrift af heimagerðu ravioli, þetta er grunn uppskrift að einföldu og fljótlegu pastadeigi:

500 gr. hveiti

5 stk meðal stór egg

plastfilma

Setjið hveiti í matvinsluvél og brjótið eggin í skál. Kveikið á matvinnsluvélinni og bætið eggjunum út í. Látið vélina ganga í um 30 sek. takið deigið úr vélinni og hnoðið í höndunum þangað til það er orðið meðfærilegt, þatta tekur um 10 mínútur. Pakkið deiginu inn í plastfilmu og geymið í a.m.k. 1 klst. í ísskáp. Deigið geymist vel í 2-3 daga í kæli.

Skiptið deiginu í 4 hluta, fletjið aðeins út í höndunum, stráið dálitlu hveiti yfir og rúllið svo í gegnum vélina. Þið byrjið á að hafa vélina stillta á 1, svo á 2 o.s.frv. þar til réttri þykkt er náð á stillingu nr. 5.

IMG_1705

Búið til tvo renninga, setjið fyllingu á með jöfnu millibili, bleytið deigið í kringum fyllinguna með fingrinum og leggið hinn renninginn ofan á og látið hann límast í bleytuna. Skerið á milli fyllinganna og búið til kodda. Ég notaði hníf en dásemd eins og kleinujárn gerir brúnirnar fallegri.

IMG_1785

Þá er bara að sjóða vatn í stórum potti, skvetta smá ólívuolíu og salti út í, setja koddana varlega ofan í og sjóða í ca. 3 mínútur. Taktu einn upp úr og sjáðu hvort hann er ekki örugglega tilbúinn.

Fyllingin sem ég gerði er úr bók Berglindar Sigmarsdóttur, Heilsuréttir fjölskyldunnar og þar er líka að finna aðra uppskrift að pastadeigi, þessi einfalda uppskrift sem ég gaf hér er meðfærilegri.

IMG_1783

Fylling:

1 stór sæt kartafla

3 msk. jómfrúarólífuolía

40 gr. valhnetur

250 gr. mascarponerjómaostur

10 basilíkulauf, fínt söxuð

1/2 sítróna, safinn

Hitið ofninn í 200°c

Skrælið kartöflu, skerið í sneiðar og leggið á bökunapappírs klædda plötu

Penslið jómfrúarólívuolíu yfir kartöflusneiðarnar og setjið inn í ofn

Slökkvið á ofninum eftir 12 mín. og látið kartöflurnar standa í ofninum í 10 mín. í viðbót

Maukið kartöflurnar í matvinnsluvél og blandið öllu nema hnetum saman við. Maukið vel í vélinni

Saxið valhnetur og hrærið saman við með sleif

IMG_1784

Þá er fyllingin tilbúin

IMG_1786

Saga fékk að gera spaghetti úr afgangnum

Berið fram með rifnum paramesanosti, góðri tómatsósu og fersku salati